[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Surimi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Surimi deig tilbúið til vinnslu
Krabbalíki unnið úr surimi

Surimi (擂り身) eða krabbalíki er hakk eða marningur oftast unnið úr fiski og er fiskurinn marinn inn í jafning sem er eins og þykkt hlaup þegar hann er eldaður. Surimi er hluti af asískri matarmenningu og er surimi deigið formað í á ýmsa vegu, oft sem eftirlíkingar af dýrum matvörum en vinsælast sem krabbar eða fiskstönglar.

Margra alda hefð er fyrir mótun mats úr fiskbolludeigi en skil urðu í iðnaðarframleiðsla á surimi árið 1969 þegar fiskverkendur í Japan fundu leið til að nýta fisk sem áður fór í fóður til manneldis. Aðallega var unnið surimi úr alaskaufsa.

Síðustu ár hafa árlega um 2-3 milljónir tonna af fiski eða milli 2-3 % af fiskafla farið í surimi og afurðir sem byggja á surimi.

Framleiðslan fer þannig fram að fiskhold er marið, kælt og þvegið þar til það verður að þykkum massa. Fiskurinn er skolaður nokkrum sinnum í vatni til að losna við lykt. Massinn eða maukið er svo blandað með vatnsbindiefnum og ýmsum efnum svo sem sterkju, eggjahvítu, salti, jurtaólíu, sorbitól, sykri, sojapróteini, kryddi og MSG. Hreinsað og þvegið fiskmaukið er vanalega bragðlaust og það verður að bæta í það bragðefnum.

Í surimi er notaður fiskur eins og tilapia, þorskur og alaskaufsi.

Bakso er surimi úr kjöti sem er vinsælt í Indónesíu.

Surimi er einnig gert úr kjöti. Í kínverskum mat er oft notað svínasurimi, oft í bollum sem líkjast fiskbollum eftir eldun. Surimi úr svínakjöti er einnig blandað með hveiti og vatni. Surimi er einnig gert úr nautakjöti og kalkúnakjöti.

Matur úr surimi: krabbalíki og rækjulíki

Surimi er notað í ýmsar unnar matvörur, oft þannig að framleiðandinn líkir eftir dýrari vöru eins og humarhölum en notar ódýrt hráefni. Surimi er ódýrt prótein. Í asískri menningu er surimi borðað sem sérstakur réttur en sjaldan notað til að líkja eftir öðrum mat. Í Japan eru vinsælar fiskkökur (kamboko) og fiskpylsur úr surimi. Í Kína er surimi úr fiski notað sem fylling eða sem fiskbollur.

Þegar surimi er framleitt úr fiski þá myndast gel úr próteini úr fisknum. Feitir uppsjávarfiskar hafa ekki rétt prótein og eru ekki notaðir í surimi. Sumir fiskar mynda ekki gelkennt surimi nema með því að bæta við eggjahvítu og kartöflumjöli (sterkju). Áður en kúariða braust út var algengt í iðnaði að blanda blóðvökva úr sláturdýrum við fiskdeigið til að auka gelmyndun.