[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Stríð Íraks og Írans

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stríð Íraks og Írans

Íranskur hermaður með gasgrímu.
Dagsetning22. september 1980 – 20. ágúst 1988 (7 ár, 10 mánuðir, 4 vikur og 1 dagur)
Staðsetning
Niðurstaða Jafntefli. Bæði lönd lýsa yfir sigri.
Stríðsaðilar
Fáni Íran Íran Fáni Íraks Írak
Leiðtogar
Fáni Íran Ruhollah Khomeini Fáni Íraks Saddam Hussein
Fjöldi hermanna

Við byrjun stríðsins:

  • 110.000–150.000 hermenn,
  • 1.700–2.100 skriðdrekar, (500 nothæfir)
  • 1.000 brynbílar,
  • 300 fallbyssur,
  • 485 sprengjuflugvélar (205 nothæfar),
  • 750 þyrlur

Eftir að Írakar hörfuðu frá Íran árið 1982:

  • 350.000 hermenn,
  • 700 skriðdrekar,
  • 2.700 brynbílar,
  • 400 fallbyssur,
  • 350 flugvélar,
  • 700 þyrlur

Snemma árið 1988:

  • 600.000 hermenn,
  • 1.000 skriðdrekar,
  • 800 brynbílar,
  • 600 fallbyssur,
  • 60–80 sprengjuflugvélar,
  • 70–90 þyrlur

Við byrjun stríðsins:

  • 200.000 hermenn,
  • 2.800 skriðdrekar,
  • 4.000 brynbílar,
  • 1.400 fallbyssur,
  • 380 sprengjuflugvélar,
  • 350 þyrlur

Eftir að Írakar hörfuðu frá Íran árið 1982:

  • 175.000 hermenn,
  • 1.200 skriðdrekar,
  • 2.300 brynbílar,
  • 400 fallbyssur,
  • 450 flugvélar,
  • 180 þyrlur

Við lok stríðsins:

  • 1.500.000 hermenn
  • ~5.000 skriðdrekar,
  • 8.500–10.000 brynbílar,
  • 6.000–12.000 fallbyssur,
  • 900 sprengjuflugvélar,
  • 1.000 þyrlur
Mannfall og tjón
Um 200.000–600.000 drepnir. Um 105.000–375.000 drepnir.
Stríð Íraks og Írans - 22. september 1980 - Teheran

Stríð Íraks og Írans (einnig kallað Fyrsta Persaflóastríðið) var stríð háð á milli Írans og Íraks sem stóð frá 22. september 1980 til 10. ágúst 1988. Deilt er um upphaf og ástæður stríðsins, en í grundvallaratriðum var barist um áhrif á Persaflóasvæðinu. Valdamenn í báðum löndum vonuðust til að draga úr þrótti andstæðingsins og auka þannig eigin völd bæði heima og á alþjóðavettvangi. Stríðið hófst með innrás Íraka. Þeir sóttu hratt inn í Íran til að byrja með en hægðu svo á og hörfuðu aftur inn í Írak og vörðust. Seinna á lokamánuðum stríðsins hófu þeir svo aftur sókn inn í Íran. Stríðið kallaði miklar hörmungar yfir báðar þjóðirnar, tafði efnahagsþróun, truflaði olíuútflutning og kostaði um eina milljón mannslífa að því að talið er.

Aðdragandi

[breyta | breyta frumkóða]

Einn þeirra þátta, sem jók á fjandskap þjóðanna tveggja var þrá Saddams Hussein, forseta Íraks, eftir völdum yfir Shatt al-Arab-fljótinu, sem rennur í Persaflóa og er mikilvæg flutningsleið olíu fyrir báðar þjóðir. Írakar höfðu nokkrum árum fyrr afsalað sér yfirráðum yfir fljótinu og nálægum landsvæðum með Alsírsamningnum, sem þeir gerðu við Írani árið 1975 í skiptum fyrir að Íranir hættu stuðningi sínum við uppreisn Kúrda í Írak.

Í kjölfar byltingarinnar í Íran 1979, þar sem keisaranum var steypt af stóli, óttuðust leiðtogar margra annarra íslamskra Arabaríkja að íslamska byltingin myndi breiðast út um Arabaheiminn og steypa veraldlegum ríkisstjórnum af stóli. Írönum var einnig í nöp við hina veraldlegu stjórn Ba'ath-flokksins í Írak og reyndu þeir að steypa henni með stuðningi við kúrdíska aðskilnaðarsinna í norðri og leiðtoga Sjíta-múslima annars staðar í Írak í þeirri von að það myndi leiða til borgarastyrjaldar í landinu.

Írak hafði einnig augastað á Íranska héraðinu Khuzestan þar sem nokkrar af stærstu olíulindum Írana er að finna, þ.m.t. olíuvinnslustöðina við Abadan sem byggð var 1909.

Saddam Hussein var nýkominn til valda og var ákveðinn í að gera Írak að risaveldi í Mið-Austurlöndum. Vel heppnuð innrás í vestur Íran myndi koma Írak í yfirburðastöðu við Persaflóa og veita þeim algjör völd yfir olíuframleiðslu á svæðinu. Þessar metnaðarfullu hugmyndir voru ekki svo langsóttar. Fjölmargar aftökur á háttsettum mönnum innan íranska hersins auk skorts á varahlutum í búnað hersins (sem var að mestu frá Bandaríkjunum) hafði lamað herinn sem hafði eitt sinn verið sá öflugasti á svæðinu. Bróðurparturinn af íranska hernum samanstóð nú af illa búnum, óþjálfuðum sjálfboðaliðum, svonefndum Pasdaran- og Basij-sveitum byltingarsinna sem voru hliðhollar Khomeini og töldust ekki til hefðbundins hers. Auk þess hafði Íran aðeins uppi lágmarksvarnir við Shatt al-Arab fljótið. 22. september, 1980 gripu Írakar tækifærið og gerðu innrás sem þeir réttlættu með meintu banatilræði við þáverandi utanríkisráðherra Tariq Aziz sem Íslamski Dawa-flokkur shíta í Írak átti að hafa staðið fyrir í apríl á sama ári með stuðningi Írans.

Gangur stríðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Til að byrja með gekk Írökum allt í haginn þar sem þeir sóttu inn í Íran á breiðu svæði. Hins vegar komust þeir fljótlega að því að íranski herinn var ekki jafn máttlaus og þeir höfðu reiknað með. Íranir fylktu sér að baki ríkisstjórnar sinnar og börðust gegn innrásarhernum. Í júní 1982 höfðu Íranir, með vel heppnaðri gagnsókn, tekið aftur þau svæði sem Írakar náðu á sitt vald í upphafi stríðs. Það sem eftir var af stríðinu fóru mestir bardagar fram innan landamæra Írak. Íranir beittu áfram óþjálfuðum Pasdaran- og Basij-sveitum sínum og treystu á mátt fjöldans á meðan fámennari en betur búinn her Íraka varðist.

Írakar lögðu til vopnahlé 1982 en Íranir héldu fast við þá áætlun sína að steypa írösku ríkisstjórninni úr stóli og stríðið hélt áfram í 6 ár til viðbótar sem einkenndust af skotgrafahernaði þar sem mannfall var gríðarlegt en landvinningar engir fyrir hvorugt landið. Uppúr 1984 hófst svokallað „olíuflutningaskipa-stríð“ (e. tanker war) milli landanna. Írönsku og írösku herirnir víluðu þá ekki fyrir sér að sökkva hlutlausum olíuflutningaskipum sem hættu sér inn fyrir Persaflóann. Tilgangurinn var að veikja andstæðinginn efnahagslega og koma í veg fyrir útflutning olíu. Hundruð olíflutningaskipa voru skemmd eða eyðilögð á þennan hátt og hundruð sjómanna létu lífið. Á síðari árum stríðsins hlaut Írak meiri og meiri stuðning erlendis frá og gat byggt upp vel búinn og vel þjálfaðan landher, flugher og flota. Árið 1988 hófu Írakar svo nýja sókn inn í Íran og hófu að gera mikla loftárásir á íranskar borgir eins og Teheran. Einangraðir Íranir gáfust þá upp og boðuðu til friðarviðræðna sem Írakar samþykktu enda hafði hið 8 ára stríð farið mjög illa með efnahaginn og fólkið í landinu.

Stríðið einkenndist af mikilli grimmd, þá sérstaklega notkun efnavopna af hálfu Íraks (aðallega sinnepsgas). Alþjóðasamfélagið beitti Íraka mjög litlum þrýstingi til að hætta notkun efnavopnanna. Írak og Bandaríkin héldu því þó fram að Íranir hefðu einnig gerst sekir um notkun slíkra vopna en það hefur aldrei fengist staðfest. Sú herfræði sem beitt var í stríðinu svipar mjög til skotgrafahernaðar fyrri heimsstyrjaldar þar sem fjölmennum, illa búnum og illa þjálfuðum herjum var stefnt saman með tilheyrandi mannfalli. Þessi aðferð var þó sérstaklega notuð af Írönum.

Alþjóðasamfélagið

[breyta | breyta frumkóða]

Vopnabúnaður Íraka var að mestu keyptur frá Sovétríkjunum en á meðan stríðið stóð keyptu þeir einnig vopn frá Kína, Egyptalandi, Frakklandi og hugsanlega Þýskalandi. Írakar fengu einnig nokkurn fjárhagslegan stuðning frá Kúveit og Sádi Arabíu að nokkru leyti í formi lána. Árið 1982 breyttu Bandaríkin stefnu sinni gagnvart stríðinu og hófu beinan stuðning við Íraka með því að sjá þeim fyrir vopnum og fjárhagsaðstoð ásamt því að taka upp venjulegt stjórnmálasamband við Írak á ný (en það hafði legið niðri frá Sex daga stríðinu 1967). Bandaríkin og bandamenn þeirra (til dæmis Bretland, Frakkland og Ítalía) sáu Írökum fyrir efna- og sýklavopnum og hjálpuðu þeim til að byggja upp getu til að framleiða kjarnorkuvopn. Á meðan Írak naut stuðnings flestra risavelda samtímans, þar á meðal bæði Sovétríkjanna og Bandaríkjanna var Íran einangrað og hafði einungis opinberan stuðning Sýrlands og Líbýu.

Sprengjur bandarískra sprengjuflugvéla falla á írönsku freigátuna IS Sahand 18. apríl 1988.

Bandaríkin lýstu aldrei formlega yfir stríði á hendur Íran en þrátt fyrir það þá lenti hersveitum landanna saman nokkrum sinnum á árunum 1987–1988 í nokkrum sjóorrustum á Persaflóa þar sem Bandaríkin höfðu mikinn viðbúnað. 3. júlí 1988, skaut Bandaríska herskipið USS Vincennes niður farþegaþotu á vegum Iran Air en stjórnvöld Í Bandaríkjunum sögðu að flugvélin hefði verið tekin í misgripum fyrir íranska F-14 Tomcat þotu sem var á sveimi á svæðinu á sama tíma. Allir þeir 290 farþegar og áhöfn sem voru í hinu borgaralega flugi fórust, þar á meðal konur og börn. Ríkisstjórn Bandaríkjanna hafði nokkru áður ástundað að selja einnig Írönum vopn, fyrst óbeint (hugsanlega með milligöngu Ísrael) en síðar beint (sjá Íran-Kontrahneykslið).

Eftirmálar

[breyta | breyta frumkóða]

Að stríðinu loknu var Írak mjög skuldugt við þær Arabaþjóðir sem höfðu staðið við bakið á þeim í stríðinu og stutt fjárhagslega. Til dæmis skulduðu þeir Kúveit 14 milljarða Bandaríkjadala sem átti þátt í þeirri ákvörðun Saddam Husseins að ráðast inn í landið árið 1990 sem leiddi til næsta Persaflóastríðs.

Olíuvinnsluiðnaður beggja ríkja var illa farinn en olíulindirnar höfðu verið aðalskotmörkin í loftárásum á báða bóga.

Í lok stríðsins stóðu landamæri ríkjanna óbreytt. Tveimur árum eftir stríðslok þegar stríð Íraks við vesturveldin vofði yfir viðurkenndi Saddam yfirráð Írana yfir austurbakka Shatt al-Arab og þar með var nákvæmlega sama staða komin upp á svæðinu og hafði verið fyrir stríðið.

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Iran-Iraq War“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. júlí 2004.
  • Anthony H. Cordesman (1987). The Iran-Iraq War And Western Security 1984-87. Jane's Publishing. ISBN 0-7106-0496-3.