Skálholtsskóli
Skálholtsskóli var skóli sem rekinn var á biskupsstólnum í Skálholti frá því á seinni hluta 11. aldar og til 1785, þó líklega alls ekki óslitið nema frá 1552. Skólinn var ásamt Hólaskóla helsta menntastofnun þjóðarinnar. Hlutverk hans var alla tíð fyrst og fremst að mennta menn til að gegna prestsembættum en fyrir suma var hann einnig undirbúningur undir framhaldsnám erlendis.
Upphaf skóla á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Elsta dæmið sem þekkt er um að Íslendingur hafi verið settur til mennta er þegar Gissur hvíti fór til Saxlands með Ísleif son sinn og kom honum þar í nám. Ísleifur kom aftur til Íslands um 1030 og er ekki ólíklegt að hann hafi þá farið að kenna öðrum en víst er að eftir að hann kom heim með biskupsvígslu 1057 og settist að í Skálholti fór hann fljótt að taka unga menn til læringar og kenna þeim prestleg fræði. Því er hefð að miða upphaf Skálholtsskóla við árið 1056, vígsluár Ísleifs, þótt víst sé að skólahald hafi ekki hafist þar fyrr en að minnsta kosti ári síðar.
Skólar voru líka á Hólum eftir að þar kom biskupssetur, í Haukadal hjá Teiti syni Ísleifs og í Odda hjá Sæmundi fróða og Oddaverjum, svo og við sum klaustrin. Ekki er mikið vitað um námsgreinar í þessum fyrstu skólum en þar hefur verið kenndur lestur og skrift, guðfræði og latína, svo og messusöngur.
Skólinn í kaþólskum sið
[breyta | breyta frumkóða]Skólahald hélt áfram í Skálholti eftir daga Ísleifs og sagt er um Þorlák Runólfsson biskup að hann hafi tekið marga menn til læringar og hafi þeir orðið góðir kennimenn og lærdómsmaðurinn Klængur Þorsteinsson biskup kenndi prestlingum. Þorlákur helgi Þórhallsson kenndi kennimönnum „ástsamlega allt embætti þat, er þeir voru skyldir at fremja, með sínum vígslum,” segir í 12. kafla af Þorláks sögu hinni elstu.
Eftir daga Þorláks helga er í rauninni nær ekkert vitað um skólahald í Skálholti allt til daga Stefáns Jónssonar, sem var biskup 1491-1518 og má gera ráð fyrir að skólahald hafi verið slitrótt, enda var oft biskupslaust árum saman; sumir erlendir biskupar komu aldrei til landsins og sumir aðrir hafa líklega haft takmarkaðan áhuga á skólahaldi. Menn fengu oft prestvígslu þrátt fyrir litla sem enga menntun og árið 1307 var til dæmis ýmsum prestum í Skálholtsbiskupsdæmi vikið úr embætti fyrir fáfræði sakir. Sumir biskupanna voru þó vel menntaðir sjálfir og má vel vera að þeir hafi haft skóla í Skálholti þótt þess finnist ekki getið í heimildum.
Stefán biskup Jónsson var ágætlega menntaður, hafði lært í Frakklandi og víðar, og hélt latínuskóla í Skálholti, að minnsta kosti frá því fyrir 1493 til eftir 1507. Honum stýrði Ásbjörn prestur Sigurðsson, sem sömuleiðis var lærður í Frakklandi. Ögmundur Pálsson biskup hafði sömuleiðis lært í Frakklandi og Belgíu og hafði ýmsa vel menntaða unga menn í þjónustu sinni svo að ekki er ólíklegt að einhvers konar skóli hafi verið í Skálholti um hans daga.
Skólinn eftir siðaskipti
[breyta | breyta frumkóða]Við siðbreytinguna í Skálholtsbiskupsdæmi 1542 skipaði konungur svo fyrir að skólar skyldu stofnaðir á klaustrunum og eignir klaustranna ganga til þeirra en það var þó strax tekið aftur. En árið 1552 skipaði konungur Páli Hvítfeld höfuðsmanni að koma hér á latínuskólum, bæði í Skálholti og á Hólum. Skyldi setja vel lærðan og guðhræddan skólameistara yfir hvorn skóla, svo og heyrara (kennara).
24 piltar voru í hvorum skóla um sig og skyldu þeir fá góðan mat og drykk eftir landsvenju, vaðmál til fata og hverjir tveir piltar saman rekkjuvoð annaðhvert ár. Eitt atriði var þó í fyrirmælum konungs sem Íslendingar treystu sér ekki til að fara eftir en það var að veita skólapiltum öl daglega. Skólinn átti líka að vera bæði vetur og sumar en eftir því var aldrei farið.
Helstu kennslugreinar voru guðfræði og latína. Um 1600 var farið að kenna grísku og frá 1649 átti að kenna reikningslist en af því varð þó minna en til stóð. Ný tilskipun var svo gefin út 1743 og samkvæmt henni átti líka að kenna hebresku, lítið eitt í heimspeki, íslensku, dönsku, reikning og sagnfræði.
Endalok Skálholtsskóla
[breyta | breyta frumkóða]Ástand skólans var orðið bágborið og fjárhagur þröngur þegar um 1775, enda var árferði þá erfitt og hallæri í landinu, en í Suðurlandsskjálftanum 1784, í miðjum Móðuharðindunum, hrundu öll hús í Skálholti nema dómkirkjan. Skólahald féll niður um veturinn og í stað þess að endurreisa hann var ákveðið að flytja bæði skólann og biskupsstólinn til Reykjavíkur. Tók því Hólavallarskóli við haustið 1785.
Skólameistarar Skálholtsskóla eftir siðaskipti
[breyta | breyta frumkóða]Lengi framan af voru skólameistarar ungir, vel menntaðir menn af góðum ættum, oft nátengdir biskupunum, sem voru að bíða eftir að fá góð embætti. Þeir gegndu því sjaldnast starfinu nema örfá ár.
- 1552-1555 Ólafur, danskur maður sem kom með Kristófer Hvítfeld til landsins. Drukknaði í Brúará.
- 1555-1556? Jón Loftsson, þá prestur á Mosfelli, var settur skólameistari.
- 1557-1561 Hans Lollich, danskur maður, sagður undarlegur í skapi.
- 1561-1564 Erasmus Villadtsson, danskur, síðar prestur í Görðum á Álftanesi, Odda og Breiðabólstað. Gegndi biskupsstörfum 1587-1589.
- 1564-1567 Guðbrandur Þorláksson, síðar Hólabiskup.
- 1567-1571 Kristján Villadtsson, bróðir Erasmusar, síðar prestur á Helgafelli. Mjög lærður og skrifaði lækningabók.
- 1571-1576 Matthías, danskur maður.
- 1576-1579 Stefán Gunnarsson. Var síðar Skálholtsráðsmaður í 40 ár.
- 1579-1583 Sigurður Jónsson, norðlenskur, hafði verið lengi við nám í Kaupmannahöfn og Rostock. Áður skólameistari á Hólum.
- 1583-1585 Gísli Guðbrandsson, síðar prestur í Hvammi í Hvammssveit.
- 1585-1589 Jón Guðmundsson, lærður í Bremen og Kaupmannahöfn, síðar prestur í Hítardal.
- 1589-1591 Jón Einarsson; var svo skólameistari á Hólum til 1594.
- 1591-1594 Oddur Stefánsson, sem varð síðan dómkirkjuprestur í Skálholti.
- 1594 Sigurður Stefánsson, bróðir Odds kdómirkjuprests. Drukknaði í Brúará eftir fáeinar vikur í starfi.
- 1595-1596 Gísli Einarsson, hálfbróðir Odds biskups. Þótti óhæfur í embætti. Síðar prestur í Vatnsfirði og síðast á Stað á Reykjanesi.
- 1596-1600 eða 1601 Oddur Stefánsson, áðurnefndur. Síðar prestur í Gaulverjabæ. Gegndi biskupsstörfum eftir dauða Odds biskups 1630.
- 1601-1602 (?) Ólafur Halldórsson, síðar prestur á Stað í Steingrímsfirði.
- 1602(?)-1608 Ólafur Einarsson, hálfbróðir Odds biskups. Vel lærður og gott skáld. Síðar prestur í Kirkjubæ í Hróarstungu.
- 1608-1610 Jón Bjarnason, síðar prestur í Fellsmúla.
- 1610-1612 Jón Sigurðsson, bróðursonur Odds biskups, síðar prestur á Breiðabólstað.
- 1612-1615 Árni Oddsson, sonur Odds biskups, síðar lögmaður.
- 1615-1621 Torfi Finnsson úr Flatey, síðar prestur í Hvammi í Hvammssveit.
- 1621-1622 Gísli Oddsson, sonur Odds biskups, síðar biskup í Skálholti.
- 1622-1630 Jón Gissurarson, síðar skólameistari á Hólum og seinna prestur í Múla.
- 1630-1632 Vigfús Gíslason. Kom heim tvítugur 1628 eftir að hafa lært í Kaupmannahöfn og Hollandi og þótti þá með lærðustu mönnum. Varð fyrst skólameistari á Hólum í tvö ár og svo í Skálholti. Þótti kröfuharður og strangur. Varð svo sýslumaður í Rangárvallasýslu.
- 1632-1635 Jón Arason, dóttursonur Guðbrandar Þorlákssonar, lengi prestur í Vatnsfirði.
- 1635 Ketill Jörundarson. Varð fyrst heyrari við skólann 17 ára. Þurfti eftir fáa mánuði í starfi að víkja fyrir eftirmanni sínum, sem var betur menntaður. Prestur í Hvammi í Hvammssveit.
- 1636-1647 Björn Snæbjörnsson, síðar prestur á Staðastað.
- 1647-1651 Þorleifur Jónsson. Í skólameistaratíð hans urðu 30 skólasveinar uppvísir að kukli og voru margir reknir úr skóla en teknir inn aftur árið eftir. Varð síðar prestur í Odda. Faðir Björns Þorleifssonar Hólabiskups.
- 1651-1661 Gísli Einarsson. Hann var lærður í stjörnufræði, mælingafræði og reikningslist og var uppálagt að kenna það við skólann. Var mjög vinsæll hjá skólasveinum. Síðar prestur á Helgafelli.
- 1661-1667 Oddur Eyjólfsson, síðar prestur í Holti.
- 1667-1688 Ólafur Jónsson. Hann hafði verið heyrari við skólann frá 1659 og var því við kennslu í nærri 30 ár og þótti góður kennari. Hann varð prestur í Hítardal 1688 en dó innan fárra mánaða.
- 1688-1690 Þórður Þorkelsson Vídalín, bróðir Jóns biskups Vídalín. Sagði af sér, var embættislaus í áratugi og stundaði lækningar og kennslu ungmenna.
- 1690-1696 Páll Vídalín, síðar lögmaður.
- 1696 Þorlákur Thorlacius Þórðarson, sonur Þórðar Þorlákssonar biskups. Veiktist á fyrsta ári í embætti og dó árið eftir og hafði þá verið hræringarlaus í á annað ár. Jón Einarsson heyrari gegndi skólameistarastarfinu á meðan.
- 1697-1702 Þórður Jónsson, sonur Jóns Vigfússonar biskups á Hólum, síðar prestur á Staðastað.
- 1702 Magnús Jónsson, annar sonur Jóns Vigfússonar biskups. Gekk drukkinn frá tjaldi sínu í Hólmakaupstað um nótt, haustið 1702, og fannst drukknaður á Hólmsgranda.
- 1702-1708 Magnús Markússon. Þótti röggsamur skólameistari. Varð síðar prestur á Grenjaðarstað.
- 1708 Jóhann Gottrup, sonur Lárusar Gottrup sýslumanns, var skólameistari skamman tíma.
- 1708-1710 Jón Halldórsson. Hann hafði verið prestur í Hítardal en lærðum mönnum hafði fækkað svo í Stórubólu að Jón biskup Vídalín sá ekki annan kost en fá einhvern vel menntaðan prest til að gegna skólameistarastarfi um hríð. Hann fór svo aftur í Hítardal. Mikill fræðimaður, faðir Finns Jónssonar biskups.
- 1710-1718 Þorleifur Arason, síðar prestur á Breiðabólstað.
- 1718-1723 Erlendur Magnússon. Varð síðar skólameistari á Hólum eitt ár, síðan prestur í Odda en dó eftir fáeinar vikur þar.
- 1723-1728 Bjarni Halldórsson, síðar sýslumaður á Þingeyrum.
- 1728-1736 Jón Þorkelsson Thorcillius. Var seinna aðstoðarmaður Ludvigs Harboe. Stofnaði Thorkillii-sjóð og gaf til barnaskóla í Gullbringusýslu.
- 1726-1746 Gísli Magnússon, síðar biskup á Hólum.
- 1746-1753 Einar Jónsson, síðar sýslumaður í Snæfellssýslu og svo Skaftafellssýslu.
- 1753-1781 Bjarni Jónsson var skólameistari í Skálholtsskóla lengur en nokkur annar, eða í 28 ár. Þótti góður kennari. Varð svo prestur í Gaulverjabæ.
- 1781-1784 Páll Jakobsson. Hafði áður lengi verið konrektor við skólann.
- 1784-1785 Gísli Thorlacius Þórðarson, sonarsonur Þórðar Þorlákssonar biskups, var skipaður haustið 1784 en þann vetur var ekkert skólahald. Hann varð skólameistari Hólavallarskóla þegar hann tók til starfa haustið 1785.