[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Sighvatur Sturluson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sighvatur Sturluson (11701238) var einn helsti höfðingi Sturlunga á fyrri hluta 13. aldar. Hann var sonur Sturlu Þórðarsonar (Hvamm-Sturlu) og Guðnýjar Böðvarsdóttur konu hans og albróðir þeirra Þórðar og Snorra Sturlusona.

Sighvatur ólst upp í Hvammi í Dölum og bjó þar framan af, á Staðarfelli, í Hjarðarholti og á Sauðafelli, en árið 1215 flutti hann til Eyjafjarðar, settist að á Grund og varð héraðshöfðingi Eyfirðinga og Þingeyinga.

Árið 1222 fór hann ásamt Sturlu syni sínum í herför til Grímseyjar, þar sem Guðmundur Arason biskup hafði þá búið um sig, til að hefna fyrir dráp elsta sonar síns, Tuma, sem biskupsmenn felldu á Hólum þá um veturinn. Kirkjan leit þá för alvarlegum augum og sættir náðust ekki fyrr en Sturla fór fyrir hönd þeirra feðga beggja í suðurgöngu til Rómarborgar í yfirbótarskyni fyrir Grímseyjarför.

Þegar Sturla kom aftur heim 1235 hóf hann þegar tilraunir til að ná landinu öllu undir sig og faðir hans og bræður drógust inn í þá baráttu og átök Sturlu við Gissur Þorvaldsson og Kolbein unga, sem lauk með Örlygsstaðabardaga 1238. Þar féll Sighvatur og fjórir synir hans. Sighvatur, sem farinn var að nálgast sjötugt, féll sunnan við gerðið á Örlygsstöðum, þar sem Kolbeinn ungi og menn hans unnu á honum.

Sighvatur var skáldmæltur en mjög lítið er varðveitt af kveðskap hans. Kona hans var Halldóra Tumadóttir, systir Kolbeins og Arnórs Tumasona og því föðursystir Kolbeins unga, og áttu þau sjö syni og tvær dætur, Steinvöru Sighvatsdóttur húsfreyju á Keldum og Sigríði Sighvatsdóttur húsfreyju á Grund. Elsti sonurinn, Tumi, var drepinn á Hólum 1222 sem fyrr segir, Þórður kakali var í Noregi, en hinir fimm voru allir þátttakendur í Örlygsstaðabardaga. Sturla féll þar, Markús særðist til ólífis og var svo veginn á Víðivöllum, Þórður yngri og Kolbeinn flúðu í kirkju á Miklabæ og voru teknir þaðan og höggnir með öxi föður síns, Stjörnu. Tumi yngri náði að flýja en var drepinn fáeinum árum síðar. Hann var stóri bróðir Snorra sturluson.

  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.