[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Mygla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Myndir sem sýna hvernig mygla vex á peru.Teknar voru myndir á 12 klukkustundafresti í sex daga.
Mygluð klementína
Mygla á svepp
Myglaðir tómatar

Mygla er sveppagróður sem tekur sér bólfestu í mat og öðrum lífrænum efnum. Oftast þykir myglaður matur ókræsilegur, en sumar tegundir matar eru vísvitandi látnar mygla, einkum ostar. Penisillín er unnið út myglu.

Áhrif myglu á heilsu fólks

[breyta | breyta frumkóða]

Áhrif myglusveppa innanhúss á fólk eru mismunandi eftir því hvaða sveppi er um að ræða. Fólki með öndunarvegssjúkdóma eins og ofnæmi eða astma, fólki með bælt ónæmiskerfi og ungum börnum eða gömlu fólki, er hættast við að veikjast við að komast í snertingu við myglu.[1]

Áhrifa getur gætt á húð sem roði, kláði og útbrot. Astmasjúklingum getur elnað sóttin og í sumum tilfellum geta sveppir valdið astma. Myglan getur valdið ofnæmiskvefi sem svipar til einkenna frjóofnæmis eða kvefs og lýsir sér sem erting í hálsi, hæsi og hósti. Ofnæmislungnabólga er eitt af því sem myglusveppir geta valdið og lýsir sér í miklum andþyngslum og öndunarerfiðleikum.[2]

Önnur einkenni sem geta fylgt því að komast í snertingu við myglusveppi eru þreyta, höfuðverkur, hiti, vöðvaverkir, blóðnasir, að eiga erfitt með að einbeita sér, að eiga erfitt með að muna og geðsveiflur. Ekki er vitað hvað það er sem veldur þessum síðastnefndu einkennum.[3] Sumir sveppir geta sýkt fólk og vaxið í og á líkömum manna og valdið sjúkdómum, en það er þó mjög sjaldgæft.[4]

Sveppaeiturefni eru aukaafurðir nauðsynlegrar starfsemi ýmissa sveppa.[5] Framleiðsla þessara efna hjá myglusveppum er mjög tegundabundin og fer mikið til eftir því á hvaða efnum þeir vaxa, sem þýðir að sveppur sem vex á vegg innanhúss framleiðir önnur efni á veggnum en þegar hann er tekinn og ræktaður á æti í tilraunarstofu. Umhverfisaðstæður eru ekki eina breytan því aðrir sveppir sem vaxa á veggnum hafa áhrif á þá efnablöndu sem sveppurinn framleiðir.[6] Sveppaeiturefnin gufa ekki upp er líklegt að þau berist í lungu manna en sannað er að sveppaeiturefni bæla niður ónæmiskerfi á nokkra mismunandi vegu og ætti því alltaf að gera viðeigandi ráðstafanir til að hindra að menn verði fyrir eitrunum séu þær sveppategundir sem framleiða sveppaeiturefni til staðar.[7]

Ef lítið er um loftskipti í húsum getur það valdið því að loftraki hækkar og óæskileg efni stíga upp í loftið og sitja þar áfram í stað þess að þynnast út eins og gerist ef loftskipti í húsum eru eðlileg. Raki innanhúss er ekki nýtt vandamál en þess er getið í Biblíunni að ekki eigi að búa eða starfa í húsnæði sem raki er í. Erfitt hefur reynst að sanna hvað það er við nákvæmlega við langvarandi búsetu í í röku húsnæði sem hefur áhrif á fólk.[8]

Rannsóknum á sveppum innahúss var hrint af stað eftir að ungabörn í Cleveland í Ohio-fylki í Bandaríkjunum veiktust skyndilega með alvarlegar blæðingar í lungum. Alls voru þetta 37 börn sem veiktust á fimm árum og af þeim dóu tólf. Þegar heimili barnanna voru könnuð kom í ljós að þau höfðu öll orðið fyrir vatnstjóni og fundust sveppurinn Stachybotrys chartarum og fleiri sveppir loftbornir í húsunum.[9]

Á síðustu tíu til tólf árum hafa hafa margir þættir verið rannsakaðir og er hægt nú að skýra ýmsa þætti þeirra neikvæðu áhrifa á heilsu fólks sem orsakast af rökum híbýlum. Enn er óljóst hversu mikið þarf til að valda einstaka áhrifum.[10]

Nauðsynlegt er að hreinsa myglusveppinn út úr húsinu eins fljótt og hægt er til að koma í veg fyrir frekari vöxt. Það skiptir ekki máli hvaða tegundir sveppa er um að ræða því að mygla og þær aðstæður sem gera henni kleift að vaxa innadyra getur haft áhrif og verið heilsuspillandi fyrir fólk.[11]

Mikið eignatjón getur orsakast af völdum myglusvepps. Muni sem gerðir eru úr gljúpum efnum eins og viður, loftplötur, einangrun, veggjaeiningar, bækur og fleira er oft ekki hægt að hreinsa og þarf því að farga. Best er að henda öllum efnum sem eru úr gljúpu efni, þó að hægt sé að hreinsa áklæði og fatnað, til að forðast það að sveppurinn komi upp aftur. Þó er hægt að bjarga sumum hlutum. Yfirleitt er hægt að þrífa efni sem hafa þétt yfirborð eins og málmar, gler og hörð plastefni með sérstökum hreinsiefnum til að hreinsa myglusveppinn.[12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Eyjólfsdóttir, 2005.
  2. Eyjólfsdóttir, 2005.
  3. Eyjólfsdóttir, 2005.
  4. Eyjólfsdóttir, 2005.
  5. Kendrick, 1992.
  6. Nielsen, 2002.
  7. Sorenson, 1999.
  8. Bornehag o.fl., 2004.
  9. Dearborn o.fl. 1999.
  10. Eyjólfsdóttir, 2005.
  11. Eyjólfsdóttir, 2005.
  12. Eyjólfsdóttir, 2005.
  • Bornehag, C.G., J. Sundell, S. Bonini, A. Custovic, P. Malmberg, S. Skerfving, T. Stigsgaard og A. Verhoeff. 2004. „Dampness in buildings as a risk factor for health effects, EUROEXPO: a multidisciplinary review of the literature (1998-2000) on dampness and mite exposure in buildings and health effects“. Indoor Air 14: 243-257.
  • Dearborn, D.G., I. Yike, W.G. Sorenson, M.J. Miller og R.A. Etzel. 1999. „Overview of investigations into pulmanary hemorrhage among infants in Cleveland, Ohio“. Inviromental Health Perspectives 107: 495-499.
  • Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. (2005). Sveppir úr íbúðarhúsnæði í Mosfellsbæ.
  • Nielsen, K.F. 2002. Mould growth on building materials. Secondary metabolites, mycotoxins and biomarkers. Doktorsritgerð. By og Dyg, statens byggeforskningsinstitut. HØrsholm.
  • Sorenson, W.G. 1990. „Fungal spores: Hazardous to health?“ Enviromental Health Perspectives 107: 469-472.