Mugello
Mugello er dalverpi í Appennínafjöllunum í Toskana um 20 km norðan við Flórens. Sunnan við dalinn eru hæðirnar Monte Giovi, Vetta le Croci, Monte Senario og Croci di Calenzano sem greina hann frá Valdarno og sveitinni umhverfis Flórens þar sem Arnó rennur. Við vesturmörk dalsins liggur Sólarhraðbrautin sem tengir Napólí og Mílanó. Eftir dalnum rennur áin Sieve í austurátt, en hún kemur upp í fjöllunum norðaustan við Barberino di Mugello. Héraðið er mikið landbúnaðarhérað þar sem er stunduð meðal annars ólífurækt, vínrækt, kornrækt og kvikfjárrækt.
Mugello varð smám saman hluti af ríki Flórens á miðöldum og meðal þeirra aðalsætta sem eiga uppruna sinn þar er Medici-ættin sem varð síðar einráð í Flórens og Toskana.
Í Mugello er fræg kappakstursbraut, Circuito del Mugello, í eigu Ferrari þar sem þeir prófa meðal annars þá kappakstursbíla sem keppa í Formúlu 1-kappakstrinum.
Sveitarfélög
[breyta | breyta frumkóða]Dalurinn skiptist milli tíu sveitarfélaga: Barberino di Mugello, Borgo San Lorenzo, Dicomano, Firenzuola, Marradi, Palazzuolo sul Senio, San Piero a Sieve, Scarperia, Vaglia og Vicchio.