[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Konrad Adenauer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Konrad Adenauer
Konrad Adenauer árið 1952.
Kanslari Vestur-Þýskalands
Í embætti
15. september 1949 – 11. október 1963
ForsetiTheodor Heuss
Heinrich Lübke
ForveriLutz Schwerin von Krosigk (1945)
EftirmaðurLudwig Erhard
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. janúar 1876
Köln, þýska keisaradæminu
Látinn19. apríl 1967 (91 árs) Bad Honnef, Vestur-Þýskalandi
StjórnmálaflokkurKristilegi demókrataflokkurinn (1945–1967);
Miðflokkurinn (1906–1933)
MakiEmma Weyer (1904–1916)
Auguste Zinsser (1919–1948)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn8
HáskóliHáskólinn í Freiburg
Háskólinn í München
Háskólinn í Bonn
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Konrad Hermann Joseph Adenauer (5. janúar 1876 – 19. apríl 1967) var þýskur stjórnmálamaður og fyrsti kanslari Vestur-Þýskalands á árunum 1949 til 1963. Hann átti mikinn þátt í að endurreisa Þýskaland úr rústum seinni heimsstyrjaldarinnar og gerði þjóðina að iðnaðarveldi með náin tengsl við Frakkland, Bretland og Bandaríkin. Á stjórnarárum hans náði Þýskaland fram lýðræðisumbótum, stöðugleika, virðingu á alþjóðavelli og efnahagsfarsæld. Adenauer var fyrsti formaður Kristilega demókrataflokksins (CDU) sem varð einn áhrifamesti stjórnmálaflokkur Þýskalands.

Adenauer var kanslari þar til hann var orðinn áttatíu og sjö ára og fékk því gælunafnið „Der Alte“ („sá gamli“). Hann var hlynntur frjálslyndu lýðræði, blönduðu markaðskerfi og andkommúnisma. Hann þótti klókur stjórnmálamaður og dyggur stuðningsmaður vestrænnar utanríkisstefnu og viðreisn Vestur-Þýskalands á alþjóðavelli. Hann endurreisti vestur-þýska hagkerfið í því sem nefnt var „Wirtschaftswunder,“ þýska „efnahagsundrinu.“ Hann endurstofnaði þýska herinn (Bundeswehr) árið 1955 og kom á sáttum milli Þjóðverja og Frakka. Þannig ruddi hann veginn fyrir efnahagslegum samruna Vestur-Evrópu. Adenauer var harður andstæðingur Austur-Þýskalands og leiddi sína þjóð inn í Atlantshafsbandalagið til að stemma stigu við uppgangi kommúnisma í Evrópu.

Adenauer var trúrækinn kaþólikki og hafði verið meðlimur Miðflokksins í Weimar-lýðveldinu, þar sem hann hafði verið borgarstjóri Kölnar (1917 – 1933) og forseti prússneska héraðsþingsins (1922 – 1933).

Konrad Adenauer fæddist 5. janúar 1876 í Köln og ólst þar upp. Hann nam lögfræði í háskóla og fór í framhaldsnám í Háskólunum í Freiburg, München og Bonn. Adenauer tók sæti í borgarstjórn Kölnar árið 1906 og var kjörinn borgarstjóri borgarinnar árið 1917. Hann gegndi því embætti þar til nasistar komust til valda í Þýskalandi árið 1933.[1]

Þegar þýska keisaradæmið var leyst upp eftir ósigur Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni árið 1918 lýsti Adenauer sig fylgjandi því að óháð lýðveldi yrði stofnað í Rínarlöndum sem yrði þó áfram innan þýsks sambandsríkis. Slíkar hugmyndir fór út um þúfur þar sem Frakkar reyndu að kljúfa Rínarlönd alfarið frá Þýskalandi.[1]

Adenauer átti sæti á þingi Prússlands frá 1917 og var forseti prússneska þingsins frá 1928 til 1933. Hann var frá upphafi andstæðingur Nasistaflokksins í þýskum stjórnmálum og beitti sér gegn nasistum þegar þeir reyndu að fá prússneska þingið leyst upp. Vegna andstöðu Adenauers gegn nasistum flýttu nasistar sér að gera hann brottrækan úr þýsku stjórnmálalífi eftir að þeir komust til valda. Þann 13. mars 1933, aðeins sex vikum eftir valdatöku nasista, tóku stormsveitir þeirra sér stöðu fyrir utan ráðhúsið í Köln, þar sem Adenauer hafði aðstöðu sem borgarstjóri, og tilkynntu að hann væri leystur úr embætti. Auk þess yrði hann ákærður fyrir margvíslega glæpi, meðal annars landráð, svik gegn Kölnarbúum og óstjórn í borgarmálum.[1]

Adenauer flúði frá Köln og faldi sig um hríð í klaustrinu Maria Laach, þar sem skólafélagi hans var ábóti, á meðan Hermann Göring vann að ákærum gegn honum. Að endingu var Adenauer þó ekki handtekinn og honum var leyft að halda þremur fjórðu hlutum borgarstjóralauna sinna. Hins vegar var Adenauer bannað að hafa nokkur afskipti af stjórnmálum og nasistar handtóku hann nokkrum sinnum á næstu árum, meðal annars árið 1934 eftir nótt hinna löngu hnífa.[1] Hann var aftur handtekinn tíu árum síðar vegna gruns um að hann ætti aðild að samsæri gegn Hitler.[2]

Kosningaplakat með Adenauer frá árinu 1949. Á því stendur: „Með Adenauer fyrir frið, frelsi og einingu Þýskalands, þess vegna CDU.“

Adenauer var óvirkur í stjórnmálun næstu árin en notaði tímann til að byggja sér hús við Rhöndorf, stutt frá Bonn.[1] Þegar bandaríski herinn sótti inn í Rínarlandið undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945 ákvað hernámsliðið hins vegar að skipa Adenauer á ný í sitt gamla embætti sem borgarstjóri Kölnar. Eftir að Þjóðverjar gáfust upp fyrir bandamönnum lenti Köln inni á hernámssvæði Breta. Breska hernámsstjórnin lét víkja Adenauer úr borgarstjóraembætti síðar sama ár á þeirri forsendu að hann hefði vanrækt húsnæðismál borgarinnar. Ástæðan mun hafa verið sú að Adenauer var andvígur byggingu bráðabirgðahúsnæða og vildi einbeita sér að enduruppbyggingu til langtíma eftir eyðileggingu stríðsins.[3]

Adenauer hafði framan af verið meðlimur í þýska Miðflokknum en árið 1945, eftir að hernámsstjórn bandamanna heimilaði starfsemi stjórnmálaflokka á ný, tók hann þátt í stofnun nýs hægriflokks, Kristilega demókrataflokksins (CDU). Miðflokkurinn hafði fyrst og fremst verið kaþólskur flokkur en nýi flokkurinn átti að hafa breiðari skírskotun og sætta sjónarmið miðstéttarfólks af kaþólskri trú og mótmælendatrú.[4] Adenauer varð leiðtogi flokksins í Norðurrín-Vestfalíu við stofnun hans og varð síðan leiðtogi hans í Þýskalandi öllu árið 1947. Adenauer lék lykilhlutverk í þingráði sem vann árið 1948 að því að semja stjórnarskrá fyrir nýja þýska sambandslýðveldið. Þegar ljóst var að ekki yrði komist hjá skiptingu Þýskalands milli vesturs og austurs einbeitti Adenauer sér að því að styrkja samstarf vesturhluta Þýskalands við vesturveldin til þess að hafa öflugar varnir gegn kommúnisma í austri.[1]

Fyrstu þingkosningar Vestur-Þýskalands voru haldnar árið 1949 og vann þá Kristilegi demókrataflokkurinn 139 af 402 þingsætum, litlu meira en Jafnaðarmannaflokkurinn, sem hlaut 131. Adenauer tókst að semja um stjórnarsamstarf við Frjálsa demókrataflokkinn og var naumlega kjörinn fyrsti kanslari Vestur-Þýskalands með aðstoð hans.[1] Stjórnarsamkomulag flokkanna fól í sér að Adenauer varð kanslari en Theodor Heuss, leiðtogi Frjálsra demókrata, varð fyrsti forseti Vestur-Þýskalands.[5]

Kanslaratíð (1949–1963)

[breyta | breyta frumkóða]
Forysta Adenauers í Vestur-Þýskalandi eftir stríðið leiddi til þess að tímaritið Time lýsti hann mann ársins árið 1954.
Adenauer (til hægri) ásamt John F. Kennedy Bandaríkjaforseta og Willy Brandt, borgarstjóra Vestur-Berlínar, árið 1963.

Sem kanslari Vestur-Þýskalands lagði Adenauer mikla áherslu á að bæta samskipti landsins bæði við Bandaríkin og við Frakkland. Hann aðstoðaði vestræn ríki við að endurhervæða Þýskaland innan ramma Atlantshafsbandalagsins og vonaðist til þess að endurreistur herafli Vestur-Þýskalands yrði hluti af alþjóðlegum her Evrópska efnahagsbandalagsins. Samband stjórnar Adenauers við Bandaríkin varð enn nánara eftir að Dwight D. Eisenhower varð forseti Bandaríkjanna árið 1953. Adenauer fór í fyrstu heimsókn sína til Bandaríkjanna í stjórnartíð Eisenhowers, sem gaf honum vilyrði um að Bandaríkin myndu ekki gera neina samninga við Sovétríkin um framtíðarlandamæri Austur- og Vestur-Þýskalands án aðkomu vestur-þýsku stjórnarinnar.[1]

Adenauer hafði mikinn áhuga á utanríkismálum og fór sjálfur með embætti utanríkisráðherra samhliða kanslaraembættinu til ársins 1955. Hann lagði áherslu á að endursameining Þýskalands gæti aðeins farið friðsamlega fram en sló því um leið föstu að Vestur-Þýskaland myndi ekki viðurkenna endanlega austanverð landamæri sín sem lögð höfðu verið á Potsdam-ráðstefnunni árið 1945.[1]

Á stjórnartíð Adenauers fór fjármála- og efnahagsráðherrann Ludwig Erhard með stjórn efnahagsmála í Vestur-Þýskalandi. Þeir Adenauer aðhylltust svokallaðan félagslegan markaðsbúskap (þ. soziale Marktwirtschaft), en með honum var í senn leitast við því að tryggja vöxt á grundvelli markaðsbúskapar og reynt að vinna gegn félagslegu misrétti og öryggisleysi sem frjálshyggja 19. aldar hefði haft í för með sér. Stjórn Adenauers reyndi að tryggja atvinnufrelsi, frjálsa samkeppni og frjálst neysluval en bjóða um leið upp á samhjálp á vegum hins opinbera. Á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina náði Vestur-Þýskalands skjótri efnahagslegri viðreisn, svo mjög að farið var að tala um „þýska efnahagsundrið“ (þ. Wirtschaftswunder).[6]

Flokkur Adenauers styrkti stöðu sína í þingkosningum ársins 1953.[7] Í september 1955 fór Adenauer í opinbera heimsókn til Moskvu og tók Vestur-Þýskaland þá upp stjórnmálasamband við Sovétríkin, auk þess sem hann samdi um lausn þýskra stríðsfanga. Adenauer hafði mikinn hróður af ferðinni og í þingkosningum Vestur-Þýskalands árið 1957 unnu Kristilegir demókratar hreinan meirihluta á þingi, sem engum stjórnmálaflokki hafði nokkru sinni tekist áður.[1] Í maí sama ár hafði Adenauer tilkynnt þjóð sinni að hernámi bandamanna í landinu væri lokið og að Vestur-Þýskaland væri aftur frjálst og fullvalda ríki.[7]

Árið 1959 hugðist Adenauer hætta sem kanslari og bjóða sig fram til forseta Þýskalands við lok seinna kjörtímabils Theodors Heuss.[8] Forsetaembættið var formlega að mestu valdalaust en Adenauer gerði sér hugmyndir um að hann myndi áfram njóta verulegra áhrifa sem leiðtogi CDU þótt hann yrði ekki lengur stjórnarleiðtogi. Adenauer hætti hins vegar við þessar fyrirætlanir og ákvað að halda áfram sem kanslari þegar þingflokkur CDU kom sér saman um að Ludwig Erhard yrði þá útnefndur næsti kanslari. Adenauer var í nöp við Erhard og sagðist ekki geta hugsað sér að þurfa að útnefna hann kanslara ef hann yrði kjörinn forseti sambandslýðveldisins.[9]

Í janúar árið 1963 skrifaði Adenauer, ásamt Charles de Gaulle Frakklandsforseta, undir vináttusamning á milli Vestur-Þýskalands og Frakklands, sem átti að marka endalok hins forna fjandskaps á milli Þjóðverja og Frakka. Á móti studdi hann de Gaulle þegar hann neitaði að veita Bretum aðild að Evrópska efnahagsbandalaginu, sem leiddi til nokkurrar gagnrýni á Adenauer.[7]

Á meðan kosningabarátta fyrir þingkosningar ársins 1961 voru í fullum gangi reisti Austur-Þýskaland Berlínarmúrinn, sem skipti Berlín til helminga. Þetta leiddi einnig til árása á stjórn Adenauers, sem tapaði hreinum meirihluta sínum í kosningunum. Adenauer samdi hins vegar um nýtt stjórnarsamstarf við Frjálsa demókrata og var kjörinn kanslari í fjórða sinn.[7]

Síðustu stjórnarár Adenauers einkenndust hins vegar af deilum hans við Ludwig Erhard, sem margir innan Kristilega demókrataflokksins kröfðust þess að tækju við kanslaraembætti vegna aldurs Adenauers og fylgistaps CDU í héraðskosningum. Adenauer gagnrýndi Erhard án afláts og sagðist ekki ætla að segja af sér fyrr en í fyrsta lagi 1963. Í apríl 1963 gerði þingflokkurinn hins vegar uppreisn gegn Adenauer og útnefndi Erhard kanslara í hans stað. Adenauer fór loks frá kanslaraembætti í október sama ár en var þó áfram leiðtogi CDU og beitti því embætti óspart til þess að gagnrýna Erhard.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 „„Lífi þínu er hvort sem er lokið". Morgunblaðið. 20. apríl 1967. bls. 12-13.
  2. „Adenauer“. Samvinnan. 1. ágúst 1950. bls. 23; 28.
  3. „Adenauer forsætisráðherra Þýzkalands 80 ára í dag“. Morgunblaðið. 5. janúar 1956. bls. 9; 12.
  4. „Konrad Adenauer“. Lesbók Morgunblaðsins. 21. ágúst 1966. bls. 2; 12.
  5. „Heuss forseti 75 ára í dag“. Morgunblaðið. 31. janúar 1959. bls. 6.
  6. Björn Jón Bragason (1. september 2017). „Hagsæld fyrir alla“. Þjóðmál. bls. 24-36.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 7,4 „Adenauer er látinn“. Tíminn. 20. apríl 1967. bls. 6.
  8. „Verður Lübke næsti forseti vestur-þýzka lýðveldisins?“. Tíminn. 20. júní 1959. bls. 6.
  9. „Ludwig Erhard“. Alþýðublaðið. 24. október 1963. bls. 7.


Fyrirrennari:
Lutz Schwerin von Krosigk
(1945, sem stjórnarráðherra Þýskalands)
Kanslari Vestur-Þýskalands
(15. september 194911. október 1963)
Eftirmaður:
Ludwig Erhard