[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

John McEnroe

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
John McEnroe (2008)

John McEnroe jr. (16. febrúar 1959 í Wiesbaden) er bandarískur tennisleikari. Hann var á toppi heimslista tennisleikara í 170 vikur, en aðeins fjórir aðrir tennisleikarar hafa verið á toppnum lengur en hann. McEnroe er þekktur í íþróttaheiminum fyrir hin alræmdu reiðiköst sín.

Dæmigerð uppgjöf hjá McEnroe, en þá stendur hann á hlið við netið. Glöggir menn sjá að hann er örvhentur.

McEnroe fæddist í þýsku borginni Wiesbaden, en faðir hans var bandarískur hermaður. Strax á unga aldri flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna (New York svæðið). McEnroe hóf að leika tennis aðeins átta ára gamall ásamt bræðrum sínum. Ári seinna tók hann þátt í tenniskeppnum víða í Bandaríkjunum. McEnroe gerðist atvinnumaður 19 ára gamall 1978. Hann sigraði í fyrsta stórmóti sínu árið eftir á Opna bandaríska mótinu, en við það tækifæri varð hann yngsti sigurvegari í því móti. Jafnframt einliðaleik keppti McEnroe einnig í tvíliðaleik. Á Wimbledon-mótinu 1979 sigraði hann í tviliðaleik í fyrsta sinn, en alls sigraði hann átta sinnum á stórmótum í tviliðaleik. 1980 náði hann þeim áfanga að komast í fyrsta sinn í efsta sæti heimslistans. Alls var hann í 170 vikur í efsta sætinu, en það er fimmti besti árangur sögunnar á karlalistanum. McEnroe sigraði alls á sjö stórmótum, en eingöngu á Opna bandaríska mótinu og Wimbledon. Sökum leiktækni sinnar var McEnroe mjög fær á hörðum velli (gras og gerviefni) en stóð höllum fæti á sandi. Þess vegna tókst honum ekki vel upp á Opna ástralska mótinu eða á Opna franska mótinu. Leiktæknin fólst í því að uppgjöfin var ekki sérlega föst, heldur nákvæm. Oftar en ekki stóð hann með netið sér við hlið í uppgjöfinni, en þannig tókst homum að leika hratt og komast upp að neti. McEnroe var auk þess flinkasti tennisleikari síns tíma í að svara uppgjöf. Allt í allt sigraði McEnroe í 77 keppnum í einliðaleik meðan hann var atvinnumaður. Í dag leikur hann enn tennis í skipulögðum mótum fyrir öldunga.

Stórmót í einliðaleik

[breyta | breyta frumkóða]
Keppni Fjöldi Ár
Wimbledon 3 1981, 1983, 1984
Opna bandaríska mótið 4 1979, 1980, 1981, 1984

Stórmót í tvíliðaleik

[breyta | breyta frumkóða]
Keppni Fjöldi Ár
Wimbledon 4 1981, 1983, 1984, 1992
Opna bandaríska mótið 4 1979, 1981, 1984, 1989

Vikur í efsta sæti á heimslista

[breyta | breyta frumkóða]
Sæti Tennisleikari Land Vikur
1 Pete Sampras Bandaríkjunum 286
2 Roger Federer Sviss 271
3 Ivan Lendl Tékklandi 270
4 Jimmy Connors Bandaríkjunum 268
5 John McEnroe Bandaríkjunum 170
6 Björn Borg Svíþjóð 109

Annað markvert

[breyta | breyta frumkóða]
  • 1984 kvæntist McEnroe bandarísku leikkonunni Tatum O’Neil og eiga þau þrjú börn. Þau skildu 1992.
  • 1997 kvæntist hann bandarísku söngkonunni Patty Smyth. Þau eiga tvö börn.
  • Í reiðikasti í leik einum hellti McEnroe úr skálum reiði sinnar yfir vallarpilt nokkurn sem hafði tekið að sér að sækja boltana. Pilturinn hét Hayden Christensen og lék seinna Svarthöfða í Stjörnustríðsmyndunum.
  • McEnroe hefur komið fram í nokkrum kvikmyndum, svo sem Anger Management með Adam Sandler og Jack Nicholson.