[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Jiangsu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Landakort sem sýnir legu Jiangsu héraðs í austurströnd Kína.
Kort af legu Jiangsu héraðs í austurströnd Kína.

Jiangsu (eða Kiangsu) (kínverska: 江苏; rómönskun: Jiāngsū ) er strandhérað við Gulahaf í austurhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Það er eitt af leiðandi héruðum landsins í fjármálum, menntun, tækni og ferðaþjónustu. Jiangsu er ekki stórt að flatarmáli (102.600 ferkílómetrar) en afar þéttbýlt. Íbúar eru um 84.7 milljónir, langflestir Han-Kínverjar. Höfuðborg héraðsins er Nanjing. Héraðið er almennt álitið eitt þróaðasta hérað Kína.

Landfræðileg afmörkun

[breyta | breyta frumkóða]

Jiangsu héraðið er á austurströnd Kína. Það afmarkast af Gula hafi í austri, borghéraðinu Shanghai í suðaustri, og af héruðunum Zhejiang í suðri, Anhui í vestri og Shandong í norðri. Héraðið er með yfir 1.000 km strandlengju meðfram Gulahafi og hið mikla Jangtse-fljót (eða Bláá) fer um suðurhluta þess.

Héraðshöfuðborgin er Nanjing, sem var suðurhöfuðborg Kína á tímum Mingveldisins (1368–1644) og höfuðborg stjórnar þjóðernissinna (1928–49). Borgin hefur einnig verið efnahagsleg og menningarleg miðstöð Suður- og Suðaustur-Kína frá fornu fari.

Í Nanjing borg bjuggu árið 2020 um 9.3 milljónir manna[1]. Aðrar stórborgir héraðsins eru Suzhou borg (12.7 milljónir íbúa), Xuzhou (9.1 milljónir), Nantong (7.7 milljónir), Yancheng (6.7 milljónir), Wuxi (7.5 milljónir), Changzhou (5.3 milljónir), Lianyungang (4.6 milljónir), Huai'an (4.6 milljónir), Yangzhou (4.6 milljónir), Taizhou (4.5 milljónir), og Suqian (5.0 milljónir).[2]

Í kínverska manntalinu árið 2020 var íbúafjöldi Jiangsu héraðs um 84.7 miljónir.[3]

Allt frá Sui ættarveldinu (581–618) og Tangveldinu (618 – 907) hefur Jiangsu verið þjóðhagsleg og viðskiptamiðstöð, meðal annars vegna byggingar hins mikla skipaskurðar sem hófst á 5. öld f.Kr. og liggur um nokkur héruð Kína. Gríðaröflugar borgir eins og Nanjing, Suzhou, Wuxi, Changzhou og Sjanghæ (sem var aðskilin frá Jiangsu héraði árið 1927) eru allar helstu kínversku efnahagsmiðstöðvarnar.

Jiangsu varð að sérstöku héraði árið 1667 á tímum Kangxi keisara. Nafnið er dregið af forskeytunum Jiangning og Suzhou, nöfnum tveggja mikilvægustu svæða innan héraðsins á þeim tíma. Landsvæði héraðsins spannar 102.600 ferkílómetrar.

Frá upphafi efnahagsumbóta árið 1990 hefur Jiangsu orðið þungamiðja kínverskrar efnahagsþróunar. Það er almennt álitið eitt þróaðasta hérað Kína mælt með þróun mannauðsvísitölu Sameinuðu Þjóðanna. Héraðið er heimili margra helstu útflytjenda heims á rafeindabúnaði, efnisvöru og vefnaðar. Það hefur einnig verið stærsti viðtakandi Kína í beinni erlendri fjárfestingu frá árinu 2006.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Bulletin of the Seventh National Population Census of Jiangsu Province (18. maí 2021). „Seventh National Population Census of the People's Republic of China“. Jiangsu Provincial Bureau of Statistics. Sótt 27. júlí 2022.
  2. Bulletin of the Seventh National Population Census of Jiangsu Province (18. maí 2021). „Seventh National Population Census of the People's Republic of China“. Jiangsu Provincial Bureau of Statistics. Sótt 27. júlí 2022.
  3. Bulletin of the Seventh National Population Census of Jiangsu Province (18. maí 2021). „Seventh National Population Census of the People's Republic of China“. Jiangsu Provincial Bureau of Statistics. Sótt 27. júlí 2022.