Ilulissat
69°13′N 51°06′V / 69.217°N 51.100°V
Ilulissat, sem á dönsku heitir Jakobshavn er þriðja stærsta byggðarlagið á Grænlandi með um 4900 íbúa (2015). Það er hluti af sveitarfélaginu Avannaata og höfuðstaður þess, aðsetur sveitarstjórnar og helstu þjónustustofnana. Bærinn er á miðri vesturströnd landsins og um 200 kílómetrum norðan við norðurheimskautsbaug. Nafn bæjarins, Ilulissat, þýðir "Ísfjallið" á grænlensku . Grænlensk-danski heimskautafarinn Knud Rasmussen fæddist og ólst upp í Ilulissat og er þar nú safn um hann og rannsóknir hans.
Í Ilulissat eru tvö fiskverkunarhús og í þeim er einkum unnið úr rækjum og grálúðu. Í hafinu fyrir utan er einnig mikið af sel og hval og þar eru mestu rostungagöngur við Grænland. Enda hefur þetta svæði verið kjörið veiðisvæði í þúsundir ára. Hér eru hundasleðar enn notaðir enda eru um 6000 hundar í bænum. Fyrir utan fiskveiðar er ferðaþjónusta stöðugt vaxandi atvinnugrein.
Á vetrum fer hitastig allt niður í -30°C (en á móti kemur að loftslag er mjög þurrt sem gerir að kuldinn verður bærilegri). Að sumri til hefur hiti farið upp í rúmar 20°C.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fornleifafræðingar hafa fundið verksummerki um að búið hafi verið á þessu svæði í um það bil 4400 ár, en ekki þó óslitið, hér var mannlaust öldum saman á hluta þess tíma. Hér hafa fundist leifar eftir byggð Saqqit- og Dorset-fólks og einnig Thule-inúíta (forfeðra núverandi Grænlendinga), en hinir síðastnefndu settust hér að í byrjun 13. aldar. Þó engin verksummerki hafi enn fundist er enginn efi á að á miðöldum komu hinir norrænu Grænlendingar hér við á veiðiferðum sínum enda er Ilulissat á miðju því svæði sem þeir nefndu Norðursetu. Bærinn Ilulissat byggðist 2 km fyrir norðan þorpið Sermermiut. Það var langstærsta byggð inúíta á Grænlandi á þeim tíma. Árið 1727 komu danskir kaupmenn þangað fyrst og 1741 stofnaði danski kaupmaðurinn Jacob Severin verslunarstöðina Jacobshavn og samtímis stofnaði Poul Egede þar trúboðsstöð.
Ilulissat ísfjörðurinn
[breyta | breyta frumkóða]Ilulissat-ísfjörðurinn (Ilulissat Kangerlua) er 40 kílómetra langur, um 7 km breiður og 1200 m djúpur fjörður sem byrjar við Grænlandsjökul og liggur út í Diskó-flóa. Fjörðurinn er mjög sérkennilegt náttúrufyrirbæri enda fullur af ísjökum allt árið. Skriðjökullinn, sem á dönsku er nefndur Jakobshavn Isbræ og Sermeq Kujalleq á grænlensku skríður út í botn fjarðarins í austri. Þessi skriðjökull skilar frá sér mesta ísmagni allra skriðjökla á norðurhveli jarðar. Hann mjakast fram um 20-35 metra á dag og skilar um 20 miljónum tonna af ís út í fjörðinn á hverju ári. Ísjakarnir eru allt að 1000 metra háir og standa um 150 metra upp úr hafinu. Vegna þrýstings frá skriðjöklinum og sjávarfalla fljóta ísjakarnir smám saman út fjörðinn, í mynni fjarðarins er hins vegar jökulgarður sem veldur því að þar er dýpið einungis um 300 metrar. Stóru ísjakarnir stranda því þar en bráðna og brotna smám saman og fljóta áfram út í Diskó-flóa. Berast ísjakarnir þá fyrst norður um Baffinsflóa med Vesturgrænlandsstraumi og síðan suður með kanadísku eyjunum og að lokum með Labradorstraumi út í Atlantshafið. Stærstu ísjakarnir þrauka allt þar til þeir eru komnir suður á um það bil 40.-45. gráðu norður, hnattstöðu sem er sunnar en Bretland og á svipaðri breiddargráðu og New York.
Ilulissat-ísfjörðurinn var tilnefndur á Heimsminjaskrá UNESCO árið 2004.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Ilulissat Isfjord, 2004. GEUS, København, Danmark. ISBN 87-7871-134-7
Ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- Vefur Ilulissat Geymt 5 febrúar 2006 í Wayback Machine
- Ferðaskrifstofa Ilulissat Geymt 22 janúar 2005 í Wayback Machine
- NASA study: Fastest Glacier in Greenland Doubles Speed Geymt 19 júní 2006 í Wayback Machine
- Ilulissat ísfjörður Geymt 13 febrúar 2012 í Wayback Machine.