[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Hundadagar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Teikning af stjörnumerkinu Stóri-hundur Canis Major úr Uranometria atlasinum.

Hundadagar eru tiltekið skeið sumars um heitasta tímann á norðurhveli, nú talið frá 13. júlí (Margrétarmessu) til 23. ágúst í Almanaki Háskólans, eða 6 vikur.

Nafnið mun komið frá Rómverjum, er sóttu hugmyndina til Forn-Grikkja. Grikkir settu sumarhitana í samband við stjörnuna Síríus, sem Íslendingar kölluðu hundastjörnuna allt frá fyrrihluta 18. aldar, sem er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stóri-hundur (Canis Major), sem um þetta leyti árs fór að sjást á morgunhimninum. Forn-Egyptar tengdu einnig árið við stjörnumerkið Stórahund og kölluðu það Síríus-ár, en hinn árlegi vöxtur árinnar Níl hófst á þessum tíma. Aftur á móti tengdu Grikkir og Rómverjar hitann við hundastjörnuna og þá aðallega skaðleg áhrif hans á gróður, menn og skepnur. Þótti til dæmis meiri hætta á hundaæði á þessum tíma.

Tímasetning hundadaga

[breyta | breyta frumkóða]
Hjá Íslendingum er hundadaganafnið aðalega tengt minningunni um Jørgen Jørgensen, oftast kallaður Jörundur hundadagakonungur.

Bæði hérlendis og erlendis hefur nokkuð verið á reiki hvenær hundadagatímabilið teldist byrja og hve lengi það stæði. Grikkir munu hafa tekið eftir því að Síríus birtist þegar sól gekk í ljónsmerki og með hliðsjón af því eru hundadagar stundum reiknaðir frá 23. júlí til 23. ágúst.

Íslenskar heimildir

[breyta | breyta frumkóða]

Hundadaga er ekki getið í forníslenskum fingrarímfræðum enda sumarhiti ekki sama vandamál svona norðarlega sem og suður við Miðjarðarhaf. Elsta heimildin er í rímtali Arngríms Jónssonar lærða og Guðbrands Þorlákssonar biskups frá 1597 en þar stendur við 16. ágúst: „endast hunda dagar“ en ekki er tekið fram hvenær þeir byrja. 1671 setur Þórður Þorlásson biskup í handbók sína hundadagar við 14. júlí og „hund. endast“ við 14. ágúst. Á 17. öld er í rímhandritum upphaf hundadaga ýmist sett á 11., 12., eða 13. júlí en lok þeirra við 17. eða 18. ágúst. Hvorki eru hundadaga getið í rími Jóns Árnasonar biskups frá 1707 né fingrarími frá 1739. Í almanaki sínu frá 1837 setur Finnur Magnússon upphaf hundadaga við 23. júlí og lok þeirra við 23. ágúst. Þær dagsetningar héldust síðan í Íslandsalmanaki hans, Jóns Sigurðssonar og Þjóðvinafélagsinns til 1924 en þá var upphaf þeirra fært yfir á 13. júlí, Margrétarmessu. Líku var farið víðasthvar í Evrópu að upphaf og endir hundadaga voru lengi vel á reiki.

Hjá Íslendingum er hundadaganafnið helst tengt minningunni um Jörund, Jørgen Jørgensen sem tók sér völd á Íslandi 25. júní 1809, en var hrakinn frá völdum 22. ágúst sama ár, en hann hefur almennt verið kallaður Jörundur hundadagakonungur.

Gömul veðurtrú

[breyta | breyta frumkóða]

Sú veðurtrú var áður fyrr á Íslandi að ef á Margrétarmessu þann 13. júlí væri rigning eða dögg, myndi það sem eftir lifði sumars og hausts verða það líka eins og þessi veðurvísa segir:

Ef á Margrétarmessu er dögg
mun það lítið bæta,
þá mun haustið hey og plögg
í húsum inni væta.
  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.