Guillaume Apollinaire
Guillaume Apollinaire (fæddur Wilhelm Albert Włodzimierz Apolinary de Kostrowick; 26. ágúst 1880 – 9. nóvember 1918) var franskt skáld af pólskum uppruna. Hann er eitt af mikilvægustu skáldum Frakklands frá upphafi 20. aldar. Hann tók þátt í ýmsum framúrstefnuhreyfingum, þar á meðal kúbismanum (í gegnum Puteaux-hópinn). Hann notaði fyrstur orðið súrrealismi í innganginum að leikriti sínu Les mamelles de Tirésias frá 1917.
Með þekktustu verkum hans eru ljóðasafnið Alcools frá 1913. Myndljóð Apollinaires komu fyrst út í ljóðasafni skömmu eftir að hann lést.
Í upphafi Fyrri heimsstyrjaldar skráði Apollinaire sig í franska herinn eftir að hafa sótt um franskan ríkisborgararétt (sem hann fékk árið 1916). Hann særðist á höfði þegar sprengjubrot hæfði hann þar sem hann sat og las í skotgröf sinni. Hann lést úr spænsku veikinni 1918.