[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Fáni Frakklands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Frakklands

Fáni Frakklands er þrílitur fáni með þremur lóðréttum röndum, rauðri, hvítri og blárri. Á frönsku heitir hann tricolore (þrílitur). Litirnir þrír eru oft tengdir við frelsi, jafnrétti og bræðralag („liberté – égalité – fraternité“), sem voru kjörorð frönsku byltingarinnar, en táknar í raun konunginn (hvítur) og París (blár og rauður). Hlutföll fánans eru 2:3.

Fyrir upptöku þrílitarins hafði konungsríkið Frakkland notast við einfaldan, hvítan fána, stundum skreyttan liljutáknum frönsku konunganna eða skjaldarmerkjum þeirra. Í frönsku byltingunni höfðu byltingarmenn farið að klæðast rauðum og bláum hattborðum og barmmerkjum eftir fall bastillunnar. Það var markgreifinn af Lafayette sem bætti hvíta litnum við til þess að gera einkennismerkin „þjóðlegri“ þar sem hvítur var „forn franskur litur“.[1] Lafayette notaði þrílitinn síðan sem einkennismerki Þjóðvarðarliðsins (Garde nationale) sem hann leiddi en Jacques-Louis David hannaði síðar aðra útgáfu af fánanum sem varð þjóðfáni Frakklands.

Fáninn tók gildi 15. febrúar árið 1794 eftir stofnun fyrsta franska lýðveldisins. Hann var tekinn úr notkun árið 1814 eftir ósigur Napóleons og endalok fyrsta franska keisaraveldisins. Frakkland varð þá konungsríki á ný og gamli hvíti fáninn var aftur tekinn í notkun. Hvíti fáninn var notaður til ársins 1830, en eftir júlíbyltinguna og stofnun júlíríkisins var þríliti fáninn aftur tekinn upp og hefur æ síðan verið þjóðfáni Frakklands.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Marie Joseph Paul Yves Roch Gilbert Du Motier Lafayette (marquis de), Mémoires, correspondance et manuscrits, 2. bindi, bls. 252.
  Þessi Frakklandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.