Demókrítos
Demókrítos | |
---|---|
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | um 450 f.Kr. |
Svæði | Vestræn heimspeki |
Tímabil | Fornaldarheimspeki |
Skóli/hefð | fjölhyggjan, eindahyggjan |
Helstu viðfangsefni | frumspeki, þekkingarfræði, siðfræði |
Demókrítos eða Δημοκριτος (fæddur um 450 f.Kr. í Abderu í Þrakíu - dáinn um 370 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur. Demókrítos var nemandi Levkipposar og ásamt honum upphafsmaður eindahyggjunnar (atómkenningarinnar). Það er nær ógerningur að segja hvaða skoðanir tilheyrðu Demókrítosi og hverjar tilheyrðu Levkipposi.
Demókrítos er sagður hafa verið glaðvær maður og var stundum nefndur „heimspekingurinn hlæjandi“ andstætt Herakleitosi, sem var þekktur sem „heimspekingurinn grátandi“.
Engin verka Demókrítosar hafa varðveist í heild sinni en varðveitt eru brot úr vekum hans.
Vísindi
[breyta | breyta frumkóða]Demókrítos var frumkvöðull í stærðfræði, einkum rúmfræði. Engin brot hafa varðveist úr stærðfræðilegum verkum hans en titlar verkanna eru þekktir (t.d. Um tölur, Um rúmfræði). Hann var meðal þeirra fyrstu sem tóku eftir því að keila hafi þriðjung af rúmáli sívalnings með sama grunnflatarmál.
Demókrítos var fyrsti heimspekingurinn sem kunnugt er um sem tók eftir því að Mjólkurslæðan sé ljós frá fjarlægum stjörnum. Aðrir heimspekingar, þeirra á meðal Aristóteles, færðu rök gegn því. Demókrítos var meðal þeirra fyrstu sem lögðu til að í alheiminum væru til margir heimar og að sumir þeirra væru byggðir fólki:
Í sumum heimum eru engin sól eða máni, í öðrum heimum eru þau stærri en í okkar heimi og í enn öðrum heimum eru þau jafnvel fleiri en í okkar heimi. Sumsstaðar eru fleiri heimar en annars staðar eru þeir færri [...]; sumsstaðar eru þeir í sókn en annars staðar eru þeir hverfandi. Suma heima skortir lífverur og jurtir og allan raka. | ||
— Demókrítos
|
Heimspeki
[breyta | breyta frumkóða]Frægastur er Demókrítos þó fyrir eindahyggjuna sem kveður á um að allt sé úr örsmáum eindum sem nefndust ódeili (atóm). Aristóteles segir að kenning Demókrítosar um efni, sem er nefnd eindahyggja (atómismi), hafi verið viðbragð við kenningu Parmenídesar, sem afneitaði tilvist hreyfingar, breytingar og tómsins. Parmenídes færði rök fyrir því að tilvist hlutar gerði ráð fyrir að hann hefði ekki „orðið til“, vegna þess að ekkert verður til úr engu. Enn fremur færði hann rök fyrir því að hreyfing væri ómöguleg, vegna þess að maður yrði að hreyfast inn í „tómið“ og (þar sem hann lagði að jöfnu tómið og „ekkert“) tómið er ekki til og því er ekki hægt að fara þangað.
Demókrítos féllst á að allt sem er til hljóti að vera eilíft og ævarandi en neitaði því að tómið væri það sama og „ekkert“. Þar með er hann fyrsti heimspekingurinn sem vitað er um að hafi fært rök fyrir tilvist algers tómarúms. Til þess að útskýra breytingarnar í kringum okkur með einföldum, óbreytanlegum verundum færði hann rök fyrir því að til séu ýmsar grundvallar verundir sem hafa ætíð verið til en geta raðast saman á ólíkan máta. Hann færði rök fyrir því að eindirnar hefðu einungis ákveðna eiginleika, t.d. stærð, lögun og massa. Allir aðrir eiginleikar, eins og litur og bragð, væru afleiðingar af flóknu samspili eindanna í líkömum okkar og í hlutunum sem við skynjum. Hann taldi að raunverulegir eiginleikar eindanna ákvörðuðu skynjanlega eiginleika hluta. Til dæmis er það sem er biturt eða súrt á bragðið myndað úr hvössum eindum, en það sem er sætt á bragðið er myndað úr sléttari eindum. Samspil þessara einda og eindanna í tungum okkar valda því hvernig við upplifum bragð hluta. Sumir hlutir eru sérstaklega harðir og þéttir vegna þess að eindirnar eru fleiri og þéttari og haldast saman vegna lögunar sinnar (t.d. vegna króka á þeim). Aðrir hlutir eru úr sérlega sléttum og sleipum eindum sem haldast illa saman.
Demókrítos taldi að það sem væri raunverulega til væru eindir og tóm. Annað væri einungis til sem safn einda sem gætu leyst upp og endurraðast og hefði því annarlega tilvist, háða eindunum. Eindirnar eru ódeilanlegar og óforgengilegar, eilífar og eru á sífelldri hreyfingu. Þær eru ekki allar eins því þær eru breytilegar að stærð og lögun.
Heimspeki Demókrítosar er vélhyggja.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Democritus“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 19. mars 2006.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Frekari fróðleikur
[breyta | breyta frumkóða]- Barnes, Jonathan, The Presocratic Philosophers (London: Routledge, 1979/1982).
- Burnet, John, Early Greek Philosophy (New York: Meridian Books, 1957).
- Cornford, F.M., Before and After Socrates (Cambridge University Press, 1932).
- Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy: Volume 2: The Presocratic Tradition from Parmenides to Democritus (Cambridge: Cambridge University Press, 1979).
- Kirk, G.S., Raven, J.E. & Schofield, M., The Presocratic Philosophers (2. útg.) (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
- McKirahan, Richard D., Philosophy Before Socrates: An Introduction With Texts and Commentaries (Indianapolis: Hackett, 1994).
- Sedley, David (ritstj.), The Cambridge Companion to Greek and Roman Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2003).
- Skirbekk, Gunnar og Nils Gilje, Heimspekisaga. Stefán Hjörleifsson (þýð.). (Reykjavik: Háskólaútgáfan, 1999).
- Taylor, C.C.W. (ritstj.), Routledge History of Philosophy. Volume 1: From the Beginning to Plato (London: Routledge, 1997).
- Wilbur, J.B. og Allen, H.J., The Worlds of the Early Greek Philosophers (Buffalo: Prometheus Books, 1979).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Democritus“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Democritus“
- „Hver var hugsuðurinn Demókrítos og hvað gerði hann?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað er ataraxía?“. Vísindavefurinn.
Forverar Sókratesar |
Míletosmenn :
Þales ·
Anaxímandros ·
Anaxímenes |