Carl von Ossietzky
Carl von Ossietzky | |
---|---|
Fæddur | 3. október 1889 |
Dáinn | 4. maí 1938 (48 ára) |
Þjóðerni | Þýskur |
Störf | Blaðamaður, rithöfundur, aðgerðasinni |
Maki | Maud Lichfield-Woods |
Börn | Rosalinde von Ossietzky-Palm |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1935) |
Carl von Ossietzky (3. október 1889 – 4. maí 1938) var þýskur blaðamaður, rithöfundur og friðarsinni sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1935 fyrir að afhjúpa leynilegan endurvígbúnað Þýskalands fyrir umheiminum.
Ossietzky var dæmdur og fangelsaður fyrir njósnir árið 1931 fyrir að birta upplýsingar um að Þjóðverjar hefðu brotið gegn Versalasamningnum með því að endurbyggja flugher sinn og þjálfa herflugmenn í Sovétríkjunum. Ossietzky sýktist af berklum í fangelsi og lést á sjúkrahúsi árið 1938.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Carl von Ossietzky fæddist í Hamborg árið 1889. Faðir hans vann þar sem lágt settur embættismaður og rakti ættir sínar til landamærahéraða Þýskalands og Póllands. Ossietzky ímyndaði sér að hann kynni að vera kominn af pólskum aðli. Eftir dauða föður hans giftist móðir Ossietzky á ný myndhöggvara sem var sósíalisti.[1]
Í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar var Ossietzky farinn að skrifa greinar sem mæltu gegn stríðsæsingnum.[1] Hann var meðal annars dæmdur í fangelsi árið 1913 fyrir að skrifa grein þar sem hann gagnrýndi prússnesku hernaðarstefnuna eftir að herforingi hjó með sverði til elsasskra borgara í Zabern fyrir að sýna honum ekki tilhýðilega virðingu. Ossietzky var hins vegar náðaður af fangavistinni.[2] Hann var kvaddur í herinn þegar stríðið braust út en reynsla hans í stríðinu styrkti enn andstöðu hans við hvers kyns stríðsrekstur.[3]
Eftir stríðið útnefndi Ludwig Quidde Ossietzky sem ritara þýska friðarsambandsins í Berlín. Ossietzky sagði sig síðar úr sambandinu þar sem hann taldi stefnu þess óhentuga og misheppnaða og hóf störf hjá dagblaðinu Berliner Volks-Zeitung.[2] Hann varð síðar ritstjóri tímaritsins Das Tage-Buch og síðan tímaritsins Die Weltbühne, sem var þá málgagn vinstrisinnaðra menntamanna og menningarspegill Weimar-lýðveldisins.[1] Á ritstjóratíð Ossietzky náði tímaritið verulegri útbreiðslu í Þýskalandi og var þekkt sem róttækt blað sem þó dró ekki taum neins ákveðins stjórnmálaflokks.[2]
Þann 22. mars 1927 birti Ossietzky grein eftir Berthold Jacob þar sem Jacob sakaði yfirmenn þýska hersins um að standa fyrir pólitískum morðum. Þýska hermálaráðuneytið höfðaði mál vegna greinarinnar og Ossietzky og Jacob voru í fyrstu báðir dæmdir til fangelsisvistar. Refsingin var síðar milduð í fjársekt.[2] Þann 12. mars tveimur árum síðar birti Ossietzky svo grein eftir flugmálasérfræðinginn Walter Kreiser þar sem upplýst var um að þýska samgöngumálaráðuneytið hefði á sínum snærum leynilega deild sem sneri að endurvígbúnaði landsins og væri fjármagnað með fé sem átti að renna til þýska ríkisflugfélagsins.[2]
Árið 1931 voru Ossietzky og Kreiser kærðir fyrir að brjóta gegn njósnalögum með því að leka hernaðarlegum leyndarmálum. Þar sem kæran gegn þeim var samkvæmt njósnalögum voru réttarhöld þeirra ekki opinber. Ossietzky var dæmdur í fangelsi en var síðan náðaður um jólin 1932.[2]
Árið 1933 komust Adolf Hitler og Nasistaflokkurinn til valda í Þýskalandi og eftir brunann í Ríkisþinghúsinu í Berlín var Ossietzky handtekinn á ný, settur í Spandau-fangelsið og síðan fluttur í Esterwegen-fangabúðirnar í febrúar sama ár. Ossietzky sætti illri meðferð í fangabúðum nasista og talið er að hann hafi verið pyntaður.[4] Þegar fulltrúi Rauða krossins heimsótti Ossietzky í nóvember 1935 og sá hvernig hann var á sig kominn komst hann svo að orði að Ossietzky væri „við ystu mörk þess sem hægt væri að þola“.[5] Vinir Ossietzky meðal þýskra flóttamanna áttu þátt í að tilnefna hann til friðarverðlauna Nóbels árið 1935 í von um að verðlaunun hans myndi beina athygli umheimsins að mannréttindabrotum nasistastjórnarinnar í Þýskalandi. Meðal þeirra sem mæltu með því að Ossietzky hlyti verðlaunin voru Willy Brandt, Albert Einstein og Thomas Mann.[1]
Norska stórþingið sæmdi Ossietzky friðarverðlaunum Nóbels þann 26. nóvember 1935. Áður hafði Hermann Göring, forseti þýska ríkisþingsins, kallað Ossietzky á sinn fund og sagt honum að hann yrði látinn laus ef hann hafnaði verðlaununum. Ossietzky neitaði tilboði Görings en honum var ekki leyft að fara til Óslóar til að veita verðlaununum viðtöku.[1]
Ossietzky sýktist af berklum í fangelsi og var fluttur á sjúkrahús í Berlín þar sem leynilögreglumenn höfðu auga með honum. Hann lést úr sjúkdómnum þann 4. maí árið 1938. Dóttir Ossiezky, Rosalinde von Ossietzky-Palm, hlaut 5.000 marka skaðabætur frá vestur-þýska ríkinu fyrir handtöku og andlát föður síns árið 1955.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Askel Zachariassen (3. mars 1965). „Sannleikurinn um örlög Ossietzkys“. Alþýðublaðið. Sótt 5. apríl 2020.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 Sigurd Hoel (1. febrúar 1937). „Ossietzky og friðarverðlaunin“. Réttur. Sótt 5. apríl 2020.
- ↑ Ármann Halldórsson (1. desember 1936). „Friðarvinur fær friðarverðlaun“. Nýja stúdentablaðið. Sótt 5. apríl 2020.
- ↑ „Carl von Ossietzky var kvalinn til dauða af nazistunum“. Þjóðviljinn. 29. maí 1938. Sótt 5. apríl 2020.
- ↑ Abrams, Irwin (september 1991). „The Multinational Campaign For Carl von Ossietzky“. IrwinAbrams. Sótt 5. apríl 2020.