[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Biblíuvers

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Biblíuvers er minnsta eining, eða grunneining, við skiptingu á texta Biblíunnar. Tölusetning biblíuversa eða ritningargreina, var fundin upp á fyrri hluta 16. aldar. Ítalskur munkur af reglu dóminíkana, Santes Pagninus (1470-1541), notaði fyrstur svipað kerfi við útgáfu Biblíu sem kom út í Lyon í Frakklandi 1527-1528, en kerfi hans náði ekki útbreiðslu.

Robert Estienne (1503-1559), nafntogaður prentari í París, gaf út Nýja testamenti árið 1551, þar sem í fyrsta skipti var innleitt það kerfi við tölusetningu biblíuversa, sem nú er notað. Árið 1553 gaf hann út heila Biblíu með tölusettum versum, og var kerfi hans almennt tekið upp á næstu áratugum.

Í fyrstu útgáfu Biblíunnar á íslensku, Guðbrandsbiblíu (1584), er aðeins tölusett kaflaskipting, en í næstu útgáfu, Þorláksbiblíu (1644) er einnig tölusett versaskipting, og í öllum íslenskum útgáfum Biblíunnar upp frá því.

Mikil þægindi þykja að því að geta vísað til tölusettra ritningargreina, t.d. Lúk. 17:21, sem merkir: Lúkasarguðspjall, 17. kapítuli, 21. vers.

Nokkur ruglingur er á því hvaða skammstafanir eru notaðar, en ætti þó sjaldan að valda misskilningi, t.d. Lúk. 17:21, eða Lk 17,21.

  • Umfjöllun á ensku og þýsku Wikipediu.