[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Schaffhausen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Schaffhausen
Skjaldarmerki Schaffhausen
Staðsetning Schaffhausen
KantónaSchaffhausen
Flatarmál
 • Samtals41,78 km2
Hæð yfir sjávarmáli
403 m
Mannfjöldi
 (2013)
 • Samtals35.613
Vefsíðawww.stadt-schaffhausen.ch Geymt 25 nóvember 2019 í Wayback Machine

Schaffhausen er borg í samnefndri kantónu í Sviss. Hún er jafnframt nyrsta borgin í Sviss.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Schaffhausen liggur við norðanvert Rínarfljót, aðeins steinsnar fyrir norðan Rínarfossana frægu. Hún er nyrsta borgin í Sviss, enda er hún hérumbil umlukin Þýskalandi á þrjá vegu. Næstu borgir eru Winterthur fyrir sunnan (25 km), Konstanz í Þýskalandi til austurs (50 km), Zürich til suðausturs (55 km) og Basel til vesturs (100 km). Schaffhausen er næststærsta svissneska borgin við Rínarfljót. Borgin er landbúnaðarborg.

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Schaffhausen sýnir svartan sauð sem stekkur úr hvítu borgarhliði. Bakgrunnurinn er gulur, undirstaðan græn. Merki þetta er gengið undan rifjum klaustursins Allerheiligen frá 12. öld, sem stóð þar nálægt. Hugmyndin er hljóðfræðileg tengsl við heiti bæjarins, Schaf (sauður) og hausen (bær). Fram til 1831 voru tveir sauðir á merkinu. En við skiptingu borgarinnar og kantónunnar fengu einingarnar hvor sinn sauðinn.

Bærinn hét upphaflega Scephusen og er dregið af orðinu Scehp, sem merkir skip. Með tímanum breyttist Sceph í Schaff. Heiti borgarinnar hefur því ekkert með kindur að gera (Schaf á þýsku).

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Schaffhausen 1548
Schaffhausen um 1850
  • Um 1000 e.Kr. myndaðist bærinn við eina staðinn milli Bodenvatns og Basel þar sem hægt var að fara á hestum yfir Rínarfljót. Þarna komust skip ekki í gegn og því varð að hlaða vörur yfir í önnur farartæki.
  • 1045 veitir Hinrik III konungur þýska ríkisins Schaffhausen borgarréttindi.
  • 1049 var klaustrið Allerheiligen stofnað í borginni.
  • 1080 eignaðist klaustrið borgina, en þar með urðu ábótarnir herrar yfir henni.
  • 1190 varð klaustrið og borgin ríkisóháð, þ.e. þau lutu beint Hinrik IV keisara.
  • 1330 veitti Lúðvík IV konungur hertogunum Albrecht II og Ottó frá Habsborg borgina að léni, sem þar með missti fríborgarstatus sinn.
  • 1372 varð stórbruni sem eyddi tæplega þremur fjórðu af öllum húsum borgarinnar.
  • 1386 urðu borgarbúar að taka þátt með Habsborg í orrustunni við Sempach gegn Sviss, sem Svisslendingar sigruðu í.
  • 1415 var Friðrik hertogi frá Austurríki, eigandi borgarinnar, settur í ríkisbann. Sigismundur keisari tók því borgina aftur í ríki sitt.
  • 1454 gerðu borgarbúar samning við Sviss, sökum þess að borgin lenti í vandræðum gegn Sváfabandalaginu og gegn Habsborg.
  • 1459 var samningurinn við Sviss lengdur um 25 ár.
  • 1501 gekk Schaffhausen formlega í svissneska bandalagið og varð að 12. kantónunni. Aðeins Appenzell átti eftir að bætast við Sviss fram að frönsku hersetunni á tímum Napoleons.
  • 1529 urðu siðaskiptin í borginni.
  • 1629 geysaði svarti dauðinn í Schaffhausen. Um helmingur borgarbúa lést.
  • 1798 hertóku Frakkar meginhluta kantónunnar, en náðu ekki borginni sjálfri.
  • 1857 fékk borgin fyrstu járnbrautartenginguna, við borgina Winterthur.
  • 1944 varð borgin fyrir nokkrum loftárásum bandamanna. Enn er ekki er vitað í dag af hvaða ástæðu það var gert, en annað hvort tóku bandamenn Schaffhausen í misgripum fyrir þýsku borgina Ludwigshafen, eða þeir voru vísvitandi að eyða vopnaverksmiðjum borgarinnar. Þetta voru verstu loftárásir á svissneska borg í heimstyrjöldinni síðari.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Árangursríkasta knattspyrnulið borgarinnar er FC Schaffhausen, er féll í aðra deild 2008. Liðið komst tvisvar í úrslit í bikarkeppninni (1988 og 1994).

Í handbolta leikur félagið Kadetten Schaffhausen í efstu deild. Liðið hefur þrisvar orðið svissneskur meistari (síðast 2007) og fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 2006). Á leiktíðinni 2007/2008 sameinaðist liðið Grasshoppers frá Zürich til að skapa úrvalslið sem tæki þátt í Evrópukeppninni, en dæmið gekk fjárhagslega ekki upp. Íbúar í Schaffhausen neituðu fjárhagsaðstoð með atkvæðagreiðslu.

Kvennablakliðið VC Kanti leikur í efstu deild. Liðið hefur ekki orðið svissneskur meistari, en varð bikarmeistari árin 2000 og 2009. Liðið leikur í Evrópudeild og gerir það gott þar.

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Allerheiligen-klaustrið
  • Klaustrið Allerheiligen var stofnað 1049 af Eberhard 6. frá Nellenburg. Byggingin var vígð 1064. 1080 eignaðist páfinn klaustrið og því urðu ábótarnir herrar yfir Schaffhausen. 1090 var byrjað að reisa kirkjuna. Hún er í dag stærsta kirkja Sviss í rómönskum stíl. 1529 urðu siðaskiptin í borginni, þannig að klaustrinu var lokað og kirkjan varð að venjulegri borgarkirkju. 1944 skemmdist klaustrið talsvert í loftárásum. Það er friðað í dag og í því er safn fyrir fornleifar, listir, sögu og náttúru.
  • Munot er gamall borgarmúr með virki á hæð einni í Schaffhausen. Hann var reistur á 16. öld og kom að góðum notum 1799 þegar Frakkar náðu ekki að vinna borgina. Eftir það var grjótið notað í nýbyggingar í borginni. 1839 var Munot lagfært og gert upp. Hann er notaður í dag fyrir sérstaka viðburði.
  • Jóhannesarkirkjan (St. Johann) er reformeruð kirkja í borginni. Byrjað var að reisa hana árið 1000 og lauk smíðinni ekki að fullu fyrr en árið 1990. Kirkjan er 34 metra breið og þar með þriðja breiðasta kirkjan í Sviss. Í henni eru haldnir tónleikar.
  • Haus zum Ritter er borgaralegt hús í Schaffhausen. Það var reist 1492, árið sem Kólumbus sigldi til Ameríku. Það var riddarinn Hans sem gerði húsið upp 1566 og bar það síðan titil hans. Þekktast er húsið fyrir útifreskurnar, en þær voru málaðar 1568-70. Þar teljast til markverðustu freskur í endurreisnarstíl norðan Alpa. 1935 voru freskurnar leystar af húsinu og settar í safninu í gamla klaustrinu Allerheiligen til varðveislu. Þess í stað voru nýjar freskur málaðar 1938-39 af Carl Roesch.