Erzsébet Báthory
Erzsébet Báthory de Ecsed | |
---|---|
Fædd | 7. ágúst 1560 |
Dáin | 21. ágúst 1614 (54 ára) Csejthe, Ungverjalandi |
Þjóðerni | Ungversk |
Störf | Aðalskona |
Maki | Ferenc Nádasdy |
Börn | Paul, Anna, Ursula og Katherine |
Erzsébet Báthory de Ecsed greifynja (7. ágúst 1560 – 21. ágúst 1614)[1] var ungversk aðalskona og meintur raðmorðingi af ungversku Báthory-aðalsættinni, sem réð yfir landi í konungsríkinu Ungverjalandi (þar sem nú er Ungverjaland og Slóvakía) og Transylvaníu (þar sem nú er Rúmenía) innan Habsborgaraveldisins. Heimsmetabók Guinness hefur nefnt Báthory sem afkastamesta kvenkyns raðmorðingja í sögunni[2] en óvíst er nákvæmlega hve marga hún drap. Báthory og fjórir viðorðsmenn hennar voru sökuð um að pynta og myrða hundruðir ungra kvenna frá 1585 til 1609.[3] Hæsta tala fórnarlamba Báthory sem var nefnd í réttarhöldum hennar var 650. Þessi tala er byggð á frásögn þernu að nafni Súsanna sem sagði að hirðmaðurinn Jakab Szilvássy hefði séð þessa talningu í einni af bókum Báthory. Bókin var þó aldrei gerð opinber og Szilvássy minntist ekki á hana í eigin vitnisburði.[4] Þrátt fyrir mikil sönnunargögn gegn Erzsébet beitti fjölskylda hennar áhrifastöðu sinni til að koma í veg fyrir að réttað yrði yfir henni. Hún var fangelsuð í desember árið 1609 í Čachtice-kastala í Efra-Ungverjalandi (nú Slóvakíu) og haldið í einangrun í gluggalausu herbergi þar til hún lést fimm árum síðar.
Um 300 manns báru vitni um morð Báthory og ofbeldisverk auk þess sem limlest lík og stúlkur í fangelsi fundust þegar hún var handtekin.[5] Sögusagnir fóru á flug eftir dauða hennar um að Báthory hefði hagað sér eins og vampíra og til dæmis baðað sig í blóði óspjallaðra meyja til þess að viðhalda ungdómi sínum. Báthory varð þjóðsagnapersóna í Ungverjalandi og er enn alræmd til þessa dags.[6] Báthory er oft nefnd í sömu andrá og Vlad Drakúla sem ein af fyrirmyndunum að Drakúla greifa og öðrum vampírusögum.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Britannica
- ↑ „Most prolific female murderer“. Heimsmetabók Guinness. Guinness World Records Limited. Sótt 5. júlí 2018.
- ↑ Ramsland, Katherine. „Lady of Blood: Countess Bathory“. Crime Library. Turner Entertainment Networks Inc. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. mars 2014. Sótt 5. júlí 2018.
- ↑ Thorne, Tony (1997). Countess Dracula. London: Bloomsbury. bls. 53.
- ↑ Bréf frá Thurzó til konu sinnar, skrifað 30. desember 1610, prentað í Farin, Michael (1989). Heroine des Grauens: Wirken und Leben der Elisabeth Báthory: in Briefen, Zeugenaussagen und Phantasiespielen (þýska). bls. 293. OCLC 654683776.
- ↑ „The Plain Story“. Elizabethbathory.net. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. október 2013. Sótt 18. nóvember 2013.